Urriðakotsvatn – Urriðavatn

stokkur.jpg

Mig langar að skrifa hálfgerða minningargrein um sérstaklega fallegt stöðuvatn sem ég hef eytt miklum tíma við. Vatnið heitir í mínum huga allavega Urriðakotsvatn því það nafn er það sem ég hef alltaf heyrt um vatnið en aðrir vilja kalla það Urriðavatn. Undanfarin ár hefur Garðabær úthlutað byggingarlóðum í nágrenni við vatnið og nú stendur til að byggja heilt hverfi í norðurhlíð þess og ég hef af þessu nokkrar áhyggjur.

Minn allra fyrsti veiðitúr var í þetta vatn þar sem það er nánast í bakgarðinum hjá foreldrum mínum, þar sem ég ólst upp. Þá fórum við pabbi þangað eftir að hafa grafið upp nokkra maðka í garðinum heima og sátum við vatnið á fallegum sumarkvöldum og störðum á flotholtin. Veiddum vel og áttum góðar stundir. Nú í seinni tíð hef ég stundað vatnið mikið og þá aðallega til að æfa mig að kasta flugu og prófa nýjar aðferðir sem ég hef lesið um í erlendum veiðiblöðum (þessi íslensku eru nefninlega ekki til að fræða, bara segja veiðisögur). Ég hef nú ekki fengið neitt svakalega stóra fiska þarna en alltaf gaman að skjótast með léttar græjur á vorin og ná úr sér mesta hrollinum fyrir sumarið.

Ég las það einhvers staðar að fyrirhugað væri að gera göngustíg í kringum vatnið og líklegt er að með þessu nýja hverfi og þessum nýja göngustíg muni veiðiálag aukast. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því vegna þess að þá minnki mínir möguleikar á því að veiða þarna heldur vil ég vekja athygli á skýrslu sem kom út um fiskistofna Urriðavatns. Þar segir m.a.

Urriðavatn ber nafn með rentu. Í vatninu er tiltölulega mikið af urriða miðað við stærð vatnsins. Stofnin ber einkenni þess að lítið er veitt í vatninu og fiskar ná tiltölulega háum aldri. Ástand stofnsins er gott, en flöskuhálsinn er sá farartálmi sem stokkurinn í Stórakrókslæk er fyrir seiði að komast upp í vatn. Hrygningarstofninn er nokkuð stór en ætla má að það dragi úr nýliðun að urriðaseiði komast ekki upp í vatn fyrr en ári síðar en þau annars gerðu og jafnvel tveimur árum síðar. Seiðin þurfa að ná í það minnsta 15 sm stærð til að eiga möguleika á að geta gengið upp í gegnum stokkinn í læknum. Þetta þýðir að meiri afföll verða á seiðum og þau vaxa hægar en þau gerðu ef þau kæmust fyrr í vatnið. Það ætti að vera forgangsverkefni að bæta fiskgengi úr læknum upp í Urriðavatn og má sjá það sem mótvægisaðgerð vegna þeirra framkvæmda sem nú eru á svæðinu. Þrátt fyrir að þéttleiki urriða sé mikill í vatninu, mun stofninn ekki þola nema takmarkað veiðiálag. Með vaxandi byggð umhverfis vatnið er líklegt að veiðiskapur í vatninu aukist.

Þar hafið þið það. Stokkurinn sem um ræðir er mikill farartálmi og í skýrslunni segir orðrétt um stokkinn:

Steyptur stokkur er í læknum stutt frá útfallinu í lækinn. Vatnið streymir um stokkinn í þrepum en þar sem það kemur út úr stokknum fossar það að nokkru leyti yfir steina og lauslegt drasl. Stærri fiskur getur lent í ógöngum að komast upp í gegnum stokkinn, sérstaklega ef hann finnur ekki rétta leið fyrir neðan hann. Þar fundust illa haldnir urriðar sem höfðu farið ranga leið og lent í nokkurskonar sjálfheldu. Mikið magn af hrygningarurriða fer um stokkinn á leið sinni á hrygningarsvæði og aftur til baka upp í vatnið að hrygningu lokinni. Kaflinn fyrir ofan stokkinn er tiltölulega stuttur og lítið þar um hrygningarstaði. Ákjósanlegir hrygningarstaðir og uppeldissvæði eru hins vegar neðan stokks í læknum. Stokkurinn er ekki gengur urriðaseiðum eða hornsílum. Líklegt er að urriði þurfi að hafa náð í það minnsta 15-20 sm stærð til að komast upp í gegnum stokkinn.

Ég vona að Garðabær komi til með að skipa einhvern umsjónarmann með vatninu og umhverfi þess. Það er mikið af drasli þarna um allt og þá sérstaklega golfkúlum sem menn hafa neglt útí vatnið. Eins og sést á myndinni sem fylgir greininni er mikið af drasli við stokkinn sem er að hamla hrygningafiskinum för og minnstu seiðunum líka. Vonandi fær Garðabær mannskap í að taka þarna til áður en vatnið verður eyðilagt með drasli og ofveiði.

2 svör

  1. Þetta vatn er dauðadæmt núna. Hefur verið mikill skóli að sækja síðustu áratugi en þegar að malbiksdrullan undan bílastæði BYKO á eftir að blandast vatninu ásamt öllu affallinu undan bílum austanverðu við vatnið þá mun þetta verða einn stór drullupollur sem á endanum verður fyllt upp í.
    Er ég neikvæður? Veit það ekki en ég held að þetta sé alls ekki verri spádómur en hjá þeim sem segja að byggð á vatnsbakkanum breyti engu.

  2. Nei mér finnst þú ekki neikvæður. Ég er alveg sammála þér og ég er búinn að æsa mig nóg yfir þessu. Sammála því sem þú segir og þó að það eigi að gera allt til að koma í veg fyrir að vatnið þorni upp með einhverju glænýju skólpkerfi þá þarf enginn að segja mér að vatnið eigi eftir að þola þetta. Þurfum bara að sækja mikið í vatnið í vor og sumar meðan það er ennþá hægt… Spurning um að sleppa allavega 50% af veiðinni, grisja en á sama tíma passa ofveiði.

Færðu inn athugasemd