Góður dagur í Urriðakotsvatni

Það þarf víst ekkert að nefna hana neitt sérstaklega blíðuna sem glatt hefur hjörtu borgarbúa undanfarna daga. Við fjölskyldan ákváðum að skella okkur í Urriðakotsvatn nú síðdegis að eyða þessum örfáu möðkum sem til voru á heimilinu. Það fer ekkert vel í frúna að vera með maðka í ískápnum og það er svo sem ekki vaninn en um daginn var ég að leiðsegja erlendum veiðimanni sem veiddi á maðk og því nokkrir tugir afgangs.

Þegar við vorum rétt lögð af stað spurði frúin hvort ég hefði tekið myndavélina með. Svo reyndist ekki vera og við höfðum orð á því að það væri þá týpískt að við myndum þá loksins moka honum upp þegar myndavélin væri ekki með. Ég sagði að ef það yrði þannig þá yrði myndavélin aldrei tekin með aftur.

Við komum að vatninu í bongó blíðu seinni partinn og ég var ekki búinn að setja saman flugustöngina þegar frúin var búin að setja í fyrsta fiskinn á maðkinn. Krakkarnir höfðu farið útá tanga þarna nálægt og komu askvaðandi þegar hún var að taka fiskinn í land. Sem betur fer var mjög einfalt að sleppa þeim fyrsta aftur ósködduðum. Það kenndi mér skoti sem ég var að leiðsegja einu sinni að það væri regla í Skotlandi þar sem hann veiddi að sleppa alltaf þeim fyrsta.

Krakkarnir héldu áfram á tanganum og við frúin vorum í lítilli vík, hún með maðk og flot og ég með fluguna. Fljótlega kom stelpan til okkar og svo voru þær mæðgur farnar á tangann. Eftir sat ég með tvær stangir með sitthvoru flotinu og möðkum dinglandi þar fyrir neðan. Eftir stutta stund komu allir tilbaka og ég rétti frúnni eina stöngina og gerði mig kláran að beita fyrir strákinn. Spyr þá konan hvar flotið sé eiginlega og það kom strax í ljós. Stelpan fékk stöngina og landaði fallegum urriða um eitt og hálft pund að þyngd.

Eftir að hafa misst tvo í viðbót á maðkinn skildi ég við hópinn og færði mig á tangann með fluguna. Þrátt fyrir mikið af mýflugum kastaði ég litla hvíta nobblernum á flotlínu og byrjaði að draga inn um leið og flugan lenti til að losna við gróður festur. Landaði þremur urriðum í fjórum köstum, einum um hálft pund en tveimur um tvö pund. Það var áberandi hvað fiskarnir eru vel haldnir og flestir þeirra sem við fengum í dag með „hnakkaspik“ ef menn vita hvað ég á við með því. Bandaríkjamaður sem ég gædaði í Minnivallalæk kallaði þetta „broad shoulders“.

Þegar á þessu öllu stóð fékk strákurinn fallegan fisk á maðkinn í víkinni. Sá var c.a. 1,5 pund og ég þurfti að koma til að ná önglinum úr kokinu. Bar þar að mann sem hafði verið að veiða hinum megin í vatninu og orðið var við aflabrögðin. Spurði hann frétta og spjallaði um stund. Þegar hann fór rölti ég mér aftur á tangann litla og landaði þar sjö urriðum í viðbót sem ég sleppti. Þeir voru frá pundi og upp í tvö og allir með „hnakkaspik“, nautsterkir og frískir.

Þvílík stund sem við áttum þarna fjölskyldan og allt saman án myndavélar.

Flottir krakkar með flotta fiska. Veiðimenn framtíðarinnar

Flottir krakkar með flotta fiska. Veiðimenn framtíðarinnar

Allir fengu fisk en flugan hafði vinninginn að þessu sinni, aldrei þessu vant. Tíu fiskar komu á lítinn hvítan nobbler og þrír á maðk. Þrettán fiskar í allt og misstum tvo, hirtum fjóra sem ekki var hægt að sleppa. Tókum myndir af þessum fjórum við heimkomuna ásamt einni mynd af magainnihaldi þeirra í glasi. Bætti þessu í möppuna Vorveiði 2009.

Fyrsti fiskurinn á land

Í gær ákvað ég að taka léttan skrepping í Urriðakotsvatn í góða veðrinu. Setti saman og byrjaði að kasta neðan við

Urriði úr Urriðakotsvatni

Urriði úr Urriðakotsvatni

hlíðina að norðan verðu. Þegar ég hafði barið þá vík í smá tíma ákvað ég að rölta bara yfir í víkina sem alltaf gefur mér fisk, víkina við golfvöllinn. Ég hafði kannski tekið þrjú köst þegar ég setti í fisk þar og bara fínasta fisk. Landaði, myndaði, sleppti og hélt áfram að veiða.

það var eitthvað sem vantaði til þess að þetta væri fullkomið og það var meira af flugu að klekjast út því það var furðulega líflaust eitthvað þarna. Um það leyti sem ég þurfti að fara að koma mér sá ég fisk taka flugu rétt undir yfirborðinu. Sennilega var þetta að fara að byrja en ég varð að rjúka.

Flugan sem ég fékk fiskinn á var silfruð mýpúpa #14. Hún er hnýtt þannig að maður tekur Grubber öngul #14-16 og hnýtir smá hvítt antron garn alveg fremst. Ekki of mikið því maður þarf að koma kúlunni á. Næst fer

Flugan Svört Chromie

Flugan Svört Chromie

kúlan á, ég set hana öfugt á þ.e.a.s. víðara gatið snýr að öngulauganu. Síðan festi ég tvinnan aftur og tek mjótt vinil rib og flatt silfur og festi það efst (ég geri það þannig, það má festa það neðst) síðan fer ég með tvinnan alveg niður að bugnum og eins langt og ég þori og festi þannig vinil rib og silfrið niður. Fer svo með tvinnan fremst og kem á eftir með silfrið nokkuð þétt vafið. Því næst vinil rib með opnum vafningum þannig að það sjáist í silfrið. Fest þetta fremst og set svo peacock kraga alveg fremst. Flugan tilbúin.

Ég var með langan taum og 6,6 punda Frog hair fluorcarbon enda og tvær flugur. Þessi silfraða var neðri, stærri flugan. Inndrátturinn alveg lúshægur og ég hef trú á því að fiskurinn hafi tekið mjög djúpt því ég var búinn að láta þetta sökkva og var svo til nýbyrjaður að draga inn.

Tvö eintök tilbúin

Tvö eintök tilbúin

Eyðilegging við Urriðakotsvatn

Ákvað að renna mér upp á Urriðakotsvatn í veðurblíðunni í gærkvöldi til að reyna við urriðann sterka sem er þarna. Blasti við mér þessi eyðilegging. það er langt síðan ég fór þarna síðast og ennþá lengra síðan ég fór austan megin í vatnið. Gat ekki setið á mér að taka nokkrar myndir af þessu öllu saman og þá sérstaklega umhverfinu. Það er virkilega farið að þrengja að manni þarna þar sem maður einu sinni gat brugðið sér út í náttúruna nánast í hverfinu þar sem ég bjó en nú blasir við gröfur og stórverslanir á bakkanum. Synd og skömm hvernig við þurfum alltaf að fara þessa leið. Framsókn segja eflaust margir en við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og við hreinlega þurfum að hafa einhver svæði þar sem hægt er að komast í burt frá borginni og út undir beran himinn. Sjá engin hús og enga bíla, sitja bara og hlusta á fuglana, horfa á fiskana vaka og náttúruna „eiga sér stað“. Þessi þróun ýtir mér meira og meira frá sér og ég verð að viðurkenna það að ég uni ekki lengur á höfuðborgarsvæðinu, ég þrái að komast í sveitina. En nóg af svona hjali…

Ég reyndi eftir fremsta megni að útiloka hávaðann og lætin í fólkinu sem var að þjálfa hundinn sinn þarna við vatnið með tilheyrandi flautuvæli og rugli og drekka í mig þessa æðislegu stund á bakkanum. Festi í gróðri og þegar ég náði að losa kom vorflugulirfa með tilbaka… Ég hafði „veitt“ vorflugulirfu í hylki og alles en fattaði það ekki fyrren of seint og ég var búinn að drepa greyið. Sá þó að hún var í grænu hylki sem hún hafði gert úr gróðurleifum og var sjálf ljósgul á búkinn með dökkbrúnt höfuð. Þegar þetta gerðist fékk ég meiri áhuga á því að skoða pöddurnar en pæla í veiðinni og rak þá augun í þetta kvikindi hér. Jú þetta er igla sem ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki að væri á Íslandi.. Ég sem hélt að ég væri svo fróður um pöddurnar! Kemur í ljós að það eru hvorki fleiri né færri en 6 tegundir af iglum á Íslandi. Tók bæði myndir og video og ef ég næ einhvern tímann að koma videoum á youtube þá fáið þið kannski að sjá þetta.

Átti góða stund á bakkanum og náði einum litlum sem ég var ekkert að taka myndir af. Eyddi meiri tíma í að góna ofan í vatnið og upp í loftið en með flugurnar í vatninu en svona er þetta bara. Tíminn sem fór í uppítökur og læti í fiskunum var stuttur og ég eyddi þeim tíma meira eða minna með flugur í lúkunum að reyna að koma taumnum í gegnum augað á pínulítilli þurrflugu. Gróðurinn þarna er líka plága svo að eina sem virkaði var að nota þvottasnúruaðferðina og þegar ég var loksins búinn að græja hana fékk ég fisk. Lét þar við sitja og fór heim pínulítið svekktur yfir þessari eyðileggingu sem á sér stað þarna á þessum annars fallega stað.

Þvottasnúruaðferðin er skemmtileg aðferð sem ég nota mjög mikið þegar það er mýklak í gangi en þá er ég með cdc mýpúpu á point og tvær mýpúpur á mið og top dropper. Síðan set ég þurrflugugel á tauminn c.a. 50-60 cm fyrir ofan efstu flugu. Svo þegar þetta liggur allt í vatninu þá hanga púpurnar tvær rétt fyrir neðan vatnsborðið, cdc púpan flýtur og er eins og hún sé að ná í gegnum vatnsflötinn. Taumurinn flýtur á öðrum endanum og þurrflugan flýtur á hinum endanum en púpurnar hanga eins og þær séu á þvottasnúru. Frábær aðferð þegar maður sér einhverja hreyfingu á vatnsborðinu og þá er öruggt að fiskurinn er að taka flugur í, við eða rétt undir yfirborðinu og með þessari aðferð dekkar maður nánast allt (þ.e.a.s. ef maður er viss um að hann sé að taka mýflugur).

Urriðakotsvatn – Urriðavatn

stokkur.jpg

Mig langar að skrifa hálfgerða minningargrein um sérstaklega fallegt stöðuvatn sem ég hef eytt miklum tíma við. Vatnið heitir í mínum huga allavega Urriðakotsvatn því það nafn er það sem ég hef alltaf heyrt um vatnið en aðrir vilja kalla það Urriðavatn. Undanfarin ár hefur Garðabær úthlutað byggingarlóðum í nágrenni við vatnið og nú stendur til að byggja heilt hverfi í norðurhlíð þess og ég hef af þessu nokkrar áhyggjur.

Minn allra fyrsti veiðitúr var í þetta vatn þar sem það er nánast í bakgarðinum hjá foreldrum mínum, þar sem ég ólst upp. Þá fórum við pabbi þangað eftir að hafa grafið upp nokkra maðka í garðinum heima og sátum við vatnið á fallegum sumarkvöldum og störðum á flotholtin. Veiddum vel og áttum góðar stundir. Nú í seinni tíð hef ég stundað vatnið mikið og þá aðallega til að æfa mig að kasta flugu og prófa nýjar aðferðir sem ég hef lesið um í erlendum veiðiblöðum (þessi íslensku eru nefninlega ekki til að fræða, bara segja veiðisögur). Ég hef nú ekki fengið neitt svakalega stóra fiska þarna en alltaf gaman að skjótast með léttar græjur á vorin og ná úr sér mesta hrollinum fyrir sumarið.

Ég las það einhvers staðar að fyrirhugað væri að gera göngustíg í kringum vatnið og líklegt er að með þessu nýja hverfi og þessum nýja göngustíg muni veiðiálag aukast. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því vegna þess að þá minnki mínir möguleikar á því að veiða þarna heldur vil ég vekja athygli á skýrslu sem kom út um fiskistofna Urriðavatns. Þar segir m.a.

Urriðavatn ber nafn með rentu. Í vatninu er tiltölulega mikið af urriða miðað við stærð vatnsins. Stofnin ber einkenni þess að lítið er veitt í vatninu og fiskar ná tiltölulega háum aldri. Ástand stofnsins er gott, en flöskuhálsinn er sá farartálmi sem stokkurinn í Stórakrókslæk er fyrir seiði að komast upp í vatn. Hrygningarstofninn er nokkuð stór en ætla má að það dragi úr nýliðun að urriðaseiði komast ekki upp í vatn fyrr en ári síðar en þau annars gerðu og jafnvel tveimur árum síðar. Seiðin þurfa að ná í það minnsta 15 sm stærð til að eiga möguleika á að geta gengið upp í gegnum stokkinn í læknum. Þetta þýðir að meiri afföll verða á seiðum og þau vaxa hægar en þau gerðu ef þau kæmust fyrr í vatnið. Það ætti að vera forgangsverkefni að bæta fiskgengi úr læknum upp í Urriðavatn og má sjá það sem mótvægisaðgerð vegna þeirra framkvæmda sem nú eru á svæðinu. Þrátt fyrir að þéttleiki urriða sé mikill í vatninu, mun stofninn ekki þola nema takmarkað veiðiálag. Með vaxandi byggð umhverfis vatnið er líklegt að veiðiskapur í vatninu aukist.

Þar hafið þið það. Stokkurinn sem um ræðir er mikill farartálmi og í skýrslunni segir orðrétt um stokkinn:

Steyptur stokkur er í læknum stutt frá útfallinu í lækinn. Vatnið streymir um stokkinn í þrepum en þar sem það kemur út úr stokknum fossar það að nokkru leyti yfir steina og lauslegt drasl. Stærri fiskur getur lent í ógöngum að komast upp í gegnum stokkinn, sérstaklega ef hann finnur ekki rétta leið fyrir neðan hann. Þar fundust illa haldnir urriðar sem höfðu farið ranga leið og lent í nokkurskonar sjálfheldu. Mikið magn af hrygningarurriða fer um stokkinn á leið sinni á hrygningarsvæði og aftur til baka upp í vatnið að hrygningu lokinni. Kaflinn fyrir ofan stokkinn er tiltölulega stuttur og lítið þar um hrygningarstaði. Ákjósanlegir hrygningarstaðir og uppeldissvæði eru hins vegar neðan stokks í læknum. Stokkurinn er ekki gengur urriðaseiðum eða hornsílum. Líklegt er að urriði þurfi að hafa náð í það minnsta 15-20 sm stærð til að komast upp í gegnum stokkinn.

Ég vona að Garðabær komi til með að skipa einhvern umsjónarmann með vatninu og umhverfi þess. Það er mikið af drasli þarna um allt og þá sérstaklega golfkúlum sem menn hafa neglt útí vatnið. Eins og sést á myndinni sem fylgir greininni er mikið af drasli við stokkinn sem er að hamla hrygningafiskinum för og minnstu seiðunum líka. Vonandi fær Garðabær mannskap í að taka þarna til áður en vatnið verður eyðilagt með drasli og ofveiði.