Flugukast… Norræna aðferðin – Gagnrýni

Jæja þá er ég kominn með eintak í hendurnar. Loksins. Hef verið hlaðinn verkefnum undanfarið og lítið komist í að fletta bókinni nema bara stutta stund undanfarna daga. Ég verð þó að segja að við fyrstu sýn lítur hún mjög vel út og er sannarlega viðamikið verk. Ef eitthvað slæmt mætti segja um þessa bók er það að titillinn segir ekki nema hálfa söguna. Það fyrsta sem mér datt í hug var að hér væri komin bók sem myndi kenna mér að kasta tvíhendu og ég hugsaði sem svo „af hverju ekki bara að fara á kastnámskeið?“

Kápumynd bókar Henriks Mortensen um fluguköst

Kápumynd bókar Henriks Mortensen um fluguköst

Þessi bók kennir svo miklu meira og ég leyfi mér að taka svo stórt upp í mig og segja að hér sé komið eitthvert umfangsmesta ritverk um fluguveiði sem út hefur komið á íslensku um árabil. Og hananú. Fyrst er farið yfir grunnatriði flugukasta, þá lesandinn kynntur fyrir gáratúbum og veiðum með slíkum. Þar á eftir fer Henrik yfir val á búnaði og svo mismunandi kasttækni bæði með einhendu og tvíhendu. Hvað get ég eiginlega sagt meira? Henrik Mortensen fer vel með að kenna lesandanum að kasta flugu bæði með einhendu og tvíhendu en í leiðinni kennir hann mörg af undirstöðu atriðum fluguveiðinnar. Kannski ætti bókin frekar að heita Fluguveiðar… Norræna aðferðin!!

oddi9

Bókin er allavega mjög viðamikil ef það skyldi ekki hafa komið nógu sterkt fram. Ég hlakka til jólanna þar sem tími gefst til að lesa bókina spjaldanna á milli, taka fram Straumflugur og hnýta flugur á milli kafla í kastbókinni hans Henriks. Ég sé það fyrir mér að mæta á bakkann næsta sumar með banvænar flugur í boxinu og útúrskólaður í fluguköstum þökk sé þessari glæsilegu veiðiútgáfu þessi jólin. Jæja þetta hljómar allt eins og þreyttur auglýsingatexti en ég er ánægður með þessar tvær bækur sem ég hef fengið í hendurnar að lesa sem komu út núna fyrir jólin. Mér þætti gaman að heyra skoðanir þeirra sem þetta lesa og hafa haft tækifæri á að fletta þessum bókum, Straumflugur og Flugukast… Norræna aðferðin. Ég mæli allavega með þeim báðum og er þessi nýjasta sem ég hef verið að fletta undanfarna daga mjög stór og flott bók sem hentar jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna. Takk fyrir mig.