Slöpp Eurovision „rimma“ í Kastljósi kvöldsins

Ég trúi því varla að ég sé að fara að skrifa enn eina bloggfærsluna um þetta blessaða Eurovision mál. Jæja ég slepp þá við að blanda mér í stjórnmálaumræðu á meðan. Las Fréttablaðið í dag þar sem Friðrik Ómar sakar áhangendur Mercedez Club um fordóma og segir þá hafa haft óviðeigandi og ljót orð í frammi um sig í viðurvist ættingja sinna sem hafi tekið þetta mjög nærri sér. Á sama stað kallar Gillz, Friðrik Ómar væluskjóðu og biður hann að fara að hætta þessu væli.

Allavega, svo var ég að horfa á fréttirnar á RÚV í kvöld þegar Kastljós þáttur kvöldsins var kynntur… Friðrik Ómar og Gillz mæta og ræða ummæli hvors annars í fjölmiðlum. Ussssssss nú verður tekist á, ég sá fyrir mér hörku rifrildi sem mögulega hefði endað með því að annar þeirra hefði látið misfögur orð falla í hita leiksins svo ég hefði nú eitthvað að velta mér uppúr næstu daga. Kannski heimtað að F.Ó. axlaði ábyrgð, bæðist afsökunar og gæfi farmiðann frá sér til t.d. Cerez 4. Það væri kannski eitthvað að athuga? C4 og Regína saman á sviðinu í Serbíu. C4 helskafinn með brúnkukremið og svitaböndin á úlnliðnum og Regína þarna með honum að gera eitthvað annað (veit svo sem ekki hvað gerir hana sérstaka, fyrir utan röddina að sjálfsögðu). Það væri þá ekki úr vegi að finna línunni hans C4, „eins, zwei, drei…. HARDCORE“, stað í nýja Eurovision laginu okkar.. hhhmmm ég held að ég sé kominn með nokkuð sterka hugmynd. Þetta myndi allavega sætta flesta og við fengjum það besta úr báðum lögum!?!?!

Jæja allavega, ég er kominn langt út fyrir efnið. Ég varð semsagt fyrir miklum vonbrigðum með Kastljós þáttinn í kvöld og fékk það á tilfinninguna að þetta væri sviðsett atriði hjá RÚV með það að markmiði að róa þá sem urðu ævareiðir yfir ummælum Friðriks Ómars svo allir geti verið sáttir við að hann fari út. Kommon… var ekki hægt að reyna að kveikja í allavega smá rökræðum?? Kannski nettu rifrildi? Hvar er Sigmar þegar svona er?? Djöfull sé ég það fyrir mér að hann hefði náð að kveikja aðeins undir þeim… Gillzarinn hefði tekið nett „roid rage“ (nei ég er ekki að segja að Gillz noti stera), hjólað í Sigmar fyrst og svo í Friðrik… Vá hvað það hefði verið gott sjónvarpsefni og efni í marga góða Kastljós þætti á komandi vikum. Ekki misskilja mig ég er alls ekki að kynda undir ofbeldi ég held bara að maður sé orðinn háður einhverjum svona opinberum deilum.. eða ég veit það ekki, kannski var þetta bara best fyrir alla að þeir eru nú sáttir, kannski hefði átt að ganga alla leið með þetta og Þórhallur að koma þarna að borðinu og skikka þá til að takast í hendur eins og grunnskólakrakka!!! Hvernig væri það?? ussssss ég þarf að fara að finna mér eitthvað að gera.

En ég segi það enn og aftur, ef maður velur sér starf  á opinberum vettvangi svo sem stjórnmálamaður, skemmtikraftur, atvinnumaður í íþróttum þá verður maður að búast við því og búa sína nánustu undir það að heyra neikvæða gagnrýni. Hvernig ætli þetta sé í enska boltanum? Þar eru stundum þúsundir áhorfenda að gjörsamlega hrauna yfir menn og fjölskyldur þeirra og þetta þurfa þeir bara að þola, halda áfram að spila leikinn og reyna þá frekar að stinga upp í fólk með frammistöðu sinni á vellinum. Sjáið Christiano Ronaldo. Sá hefur fengið að finna fyrir því en ég held að menn þori ekki lengur að baula þegar hann fær boltann því hann virðist bara spila betur fyrir vikið og gjörsamlega stingur upp í fólk.

„við viljum bara þakka þjóðinni fyrir veittan stuðning og keppinautum okkar fyrir veitta keppni“ – Friðrik Ómar eftir sætan sigur í forkeppni Eurovision 2008.

„Hann má halda og segja það sem honum sýnist, ég er á annari skoðun og mun gera mitt til að sýna honum að hann hafi rangt fyrir sér“ – Gísli Marteinn spurður út í ummæli Össurar á bloggsíðu sinni.

„Spurðu hann frekar útí þetta mál, hvað kemur mér það við hvað Össur er að kvaka um flokksbræður mína, Gísli Marteinn er stór strákur sem getur séð um sínar rimmur sjálfur“ – Sigurður Kári spurður útí ummæli Össurar um Gísla Martein á bloggsíðu sinni.

„Ég var veikur en er það ekki lengur og mun gera mitt til þess að koma í veg fyrir að ég veikist aftur. Eins og segir í laginu –  I once was lost but now am found, was blind but now I see“ – Ólafur F. spurður út í veikindi sín á blaðamannafundi.

Þetta finnst mér miklu meira töff og í raun skilur hinn aðilann eftir með nett samviskubit og svíður eflaust aðeins meira. Mig langar að benda öllum á mjög merkilega bloggfærslu Seth Godin þar sem mjög margt merkilegt kemur fram og ekki úr vegi kannski fyrir sem flesta fasteignasala að lesa þetta ef stefnir í einhverja kuldatíð á fasteignamarkaði.