Back in Holar city!!!

Þá er góðu helgarfríi lokið og ég er kominn aftur í skólann. Átti mjög ánægjuleg viðskipti við Flugfélagið Ernir og fékk algjöra úrvals þjónustu hjá þeim. Öll samskiptin voru ánægjuleg og miðuð að því að gera mig sem ánægðastan, öll þjónusta til fyrirmyndar og starfsmenn tilbúnir að fara út fyrir vinnulýsingu sína til að aðstoða mig með vandamál. Vel gert!!

Þegar til höfuðborgarinnar var komið lá leiðin í klippingu á Carter þar sem ég hef farið í klippingu síðan ég var 15 ára. Robbi veit uppá hár hvað að er sem ég vill og ég labba alltaf þaðan út í skýjunum yfir þjónustunni. Vel gert!!

Á rölti mínu um verslunarmiðstöðina Fjörð þar sem Carter er til húsa var ég ónáðaður af starfsfólki eins stærsta viðskiptabanka landsins. Ég þoli ekki þetta lið sem er að reyna að selja mér bankaþjónustu. Ég þoli ekki að vera truflaður þegar ég er á gangi í bænum eða verslunarmiðstöðum. Ég þoli ekki þegar þessir sölumenn eru að hringja í mig til að selja mér tryggingar, lífeyrissparnað eða hvað þetta nú allt heitir. Ekki vel gert!!

Fór í bíó á Brúðgumann. Frábær mynd og geðveik myndataka en miðinn á myndina kostaði 1.200 kr. Ég geri mér grein fyrir því að íslenskar myndir eru dýrari í framleiðslu þar sem það er vitað mál að það eru ekki milljónir manna að fara að sjá myndirnar í bíóhúsum um allan heim. EEENN getur ekki verið að hátt miðaverð fæli eitthvað af fólki frá því að sjá myndina í bíó? Bendi á þetta blogg hjá Seth Godin til frekari útskýringa þar sem hann skrifar um svipað mál.

Átti almennt góðar stundir í bænum um helgina og ekki var það verra að komast í saltkjöt og baunir í Skagafirði í dag. Ákvað að splæsa í mat í mötuneytinu í dag þar sem það er nú sprengidagur og ekki úr vegi að bragða á kræsingunum hérna í mekka saltkjötsins.. Skagafirði. Ég get sagt ykkur það að ég varð ekki fyrir vonbrigðum og sit núna við tölvuna, saddur, sæll og glaður með TruntuTægjur í Tönnunum.

Tók með mér nokkrar vel valdar veiðibækur og blöð hingað norður og hyggst hefja greinaskrif um silungsveiði sem ég mun birta hérna á síðunni. Eins og glöggir hafa tekið eftir þá er ég smátt og smátt að læra á þetta dæmi allt saman og innan skamms verður hér komin upp mikil upplýsingaveita.

Skil ykkur eftir með frábæru myndbandi um það hvernig við karlmenn getum oft verið „svo svakalega veikir“ þegar við fáum einhverja smá kvef pest. Geggjað myndband.