Wenger er nú meiri pésinn…

Var að lesa þessa frétt á enski.is og ég verð bara að segja mína meiningu með þetta. Ég skil það ósköp vel að Gallasinn hafi verið brjálaður yfir þessu og þá sérstaklega vegna þess sem hafði gerst fyrr í leiknum þegar Eduardo fótbrotnaði. Ég skil þetta svona vel vegna þess að ég er sjálfur örugglega sá tapsárasti í heimi. Ég hefði mjög líklega brjálast svona sjálfur en ég er nokk viss um að ég hefði beðið þar til ég væri kominn inn í búningsklefa. Ef united tapar og ég er að horfa á leikinn heima þá verð ég alveg brjálaður og sýni það (þó ég þurfi nú að fara að þroskast uppúr þessu) en ef ég er að horfa á leikinn innan um fullt af fólki á einhverjum stað þá held ég þessu inni (allavega þangað til að ég er kominn heim). Gallas er fyrirliði og sem slíkur finnst mér að hann eigi að sýna fordæmi og ganga úr skugga um það að sínir menn hagi sér ekki eins og smábörn. Sem fyrirliði þá lætur þú ekki svona og sem þjálfari þá lætur þú ekki svona framkomu þinna manna fyrir framan þúsundir áhorfenda viðgangast, að húðskamma liðsfélaga þína fyrir mistök, sparka í auglýsingaskilti og ætla bara að rjúka burt af vellinum, kóróna svo skítinn alla leið upp á hnakka með því að leggjast í grasið og grenja. Wenger væri nú nær að taka hann Neil Warnock sér til fyrirmyndar samanber þessa frétt. Hvað er langt síðan Adebayor skallaði liðsfélaga sinn? Hefur Wenger enga stjórn á sínum mönnum?

Ég geri mér grein fyrir því að mínir menn eru engir englar samanber atvikið með Cantona forðum daga en sá fékk þó að finna fyrir því og taka afleiðingunum. United dæmdu hann sjálfir í 6 mánaða bann.