Minnivallalækur veiðistaðalýsing – svæði 2

Þá er það svæði 2 miðað við það hvernig við félagarnir skiptum ánni á milli stanga. Hvet alla til að bæta við þessa lýsingu ef þeir þekkja til og hafa við einhverju að bæta, já eða ef einhver er ekki sammála mér þá um að gera að kommenta. Tilgangurinn er að þróa þessa lýsingu til notkunar í framtíðinni svo að ég er spenntur að heyra og læra meira.

Svæði 2. Viðarhólmi til og með Húsaflúð.

  Þá er það Viðarhólmi. Þarna beygir áin fyrir ofan, beygir svo aftur, þrengist og myndar rennuna þar sem aðalhylurinn er. Best er þó að byrja í beygjunni þar sem áin er breiðust, halda sig neðarlega og kasta streamer eða púpum að bakkanum hinum megin. Þarna fékk ég fisk í fyrra með því að kasta stórum hvítum streamer á sink tip línu aðeins upp fyrir mig að bakkanum, leyfa flugunni aðeins að sökkva og strippa svo yfir ánna frá bakkanum hinum meginn. Fiskur liggur þarna frá beygju að næstu beygju bakka á milli. Vinna sig svo niður að næstu beygju á hnjánum og reyna þar að kasta yfir að horninu fyrir ofan rennuna og strippa yfir ánna. Fiskur liggur mjög gjarnan alveg í horninu og niður að því þar sem rennan byrjar. Svo er auðvitað alltaf fiskur í rennunni. En rennan er erfið við að eiga. Þarna þarf í raun að fara niður fyrir og kasta langt upp í rennuna og láta leka niður eða kasta þungum streamer á sink tip línu og strippa niður rennuna. Eða hreinlega hanga á horninu og þverkasta yfir rennuna. En rennan er djúp eins og þið vitið og fiskurinn liggur djúpt í henni. Persónulega held ég að það séu meiri möguleikar á að setja í fisk á svæðinu fyrir ofan rennuna.  

Svo má ekki gleyma svæðinu frá rennu og niður að hólmanum og í raun beggja megin við hólmann.

  

Þá er það Djúphylur. Hylurinn er frá flúðunum og alla leið niður fyrir beygjuna og nánast alveg niður á breiðuna á milli djúphyls og arnarhólsflúð. Þarna byrjar maður bara neðst og kastar upstream kerfisbundið bakka á milli skref fyrir skref upp allan hylinn. Séu menn tveir á stöng er ekkert óvitlaust að skipta hylnum bara í tvennt á milli sín. Passa sig á að vera á hnjánum og þegar komið er upp í beygjuna að prófa allavega áður en maður fer að kasta streamer með sink tip línu upstream og strippa niður ánna. Þarna tók ég fisk í fyrra. Þá óð ég útí við bílastæðið, kastaði þungum streamer á sink tip aðeins upp fyrir mig, létt aðeins sökkva og strippaði svo þvert yfir ánna. Og ekki gleyma flúðunum, þar eru flottir strengir.

  

Arnarhólsflúð. Geðveikur upstream staður og í raun erfitt að komast að honum að ofan. Þarna liggur fiskur um alla rennuna fyrir ofan flúðina og upp að beygjunni. Sérstaklega hef ég tekið eftir fiskum á horninu við bakkann hinum megin. Muna að prófa að kasta þungum streamer og strippa hann niður eftir áður en staðurinn er fullreyndur. Svo er það flúðin sjálf. Þarna eru djúpir hyljir tveir og menn hafa oft fengið fisk í þeim. Þá stendur maður bara í miðjum flúðum og kastar á þetta streamer. Um að gera að prófa allavega áður en maður fer niður á breiðuna.

  

Arnarhólsbreiða. Þennan stað má veiða hvernig sem er í raun. Ágætt held ég að byrja fyrir neðan og veiða hann upstream kerfisbundið bakka á milli upp að horni. Ekki fara lengra en það. Ef ekkert gerist með púpum, kasta þá streamer þarna upp eftir og strippa niður eftir. Ef það virkar ekki, skríða þá aftur niður eftir, fara uppá bakkann og læðast upp eftir frá ánni og fara útí hólmana tvo fyrir ofan breiðuna og veiða hana niður eftir.

  

Sömu sögu er að segja með Arnarhólsþrengsli. Hann myndi ég veiða á nákvæmlega sama hátt og ég lýsti fyrir breiðuna. En ekki gleyma breiðunni fyrir ofan þrengslin.

Kúavað hef ég aldrei veitt held ég svo að ég get ekkert sagt um þann stað.   

Húsaflúðin er breiðan fyrir ofan flúðina við sumarhúsið. Fiskur liggur þarna alveg niður við brotið. Best er að kasta streamer að bakkanum hinum megin og fá hann til að “swinga” fyrir framan brotið. Byrja þá bara aðeins fyrir ofan og vinna sig niður að brotinu.