Stjáni glæpamaður???

Vegna vangaveltna um það hvort ég hafi verið að brjóta lög þegar ég setti í bleikjuna þarna um daginn langar mig að birta smá kafla úr lögunum. Byrjum á skilgreiningum.

Göngusilungur: Silungur er gengur úr sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).

Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði, vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.

Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.

Þá eru það lögin:

Lög um lax- og silungsveiði.2006 nr. 61 

18. gr.Veiðitími göngusilungs.     

Veiðar göngusilungs eru heimilar frá 1. apríl til 10. október ár hvert, en í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, skulu lok veiðitíma miðast við 30. september ár hvert. Þó getur Landbúnaðarstofnun, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað stangveiðar utan þess veiðitíma í veiðivötnum þar sem slíkar veiðar hafa verið stundaðar.

19. gr.Veiðitími vatnasilungs.

     Veiðar á vatnasilungi eru heimilar frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
     Veiðifélög eða veiðiréttarhafar, þar sem ekki eru veiðifélög, skulu setja nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum. 

 

 Þetta er það sem ég fór eftir og eðlilega taldi ég mig ekki vera að brjóta nein lög. Hafi ég hins vegar brotið lög þá biðst ég afsökunar og lofa að gera það aldrei aftur. Bið ég þá að sama skapi um skýrari reglur. Í athugasemd sem ég fékk segir að það sé bannað að veiða silung í straumvatni milli 10.okt og 1. apríl en ég bara finn ekkert í lögunum um straumvatn og hvort það gildi sérstök lög um straumvatn. Hins vegar er tekið fram í skilgreiningum á vatnasilung að þar sé einnig um að ræða lækjasilung og lögin segja að það megi veiða vatnasilung allt árið. Svo ég spyr, var ég að brjóta lög? Samkvæmt skilgreiningum laganna þá var ég ekki að brjóta nein lög. Svo er þetta alltaf spurning um frekari skilgreiningar, er mögulegt að göngusilungur geti ratað upp í þennan læk? Jú eflaust þar sem lækurinn hlýtur einhvers staðar að enda í sjó. En er þá ekki sömu sögu að segja um mikinn meirihluta vatna á Íslandi? T.d. Vífilstaðavatn, þar má dorga á veturna þó það megi ekki veiða þarna með flugu fyrren 1. apríl (sem mér finnst skjóta skökku við). Er meirihluti fiska í læknum göngusilungur? Ég veit það svo sem ekki fyrir víst. Er möguleiki á því að silungur geti orðið svona stór í svona litlum læk? Tja það er spurning, sjáum Minnivallalæk. Þar verða staðbundnir urriðar alveg risastórir. Af hverju, jú Minnivallalækur er rosalega næringarríkur. Hvað með lækinn „minn“? Dettur ykkur eitthvað í hug sem gæti útskýrt svona stórar bleikjur í læk?

 

Hvað um það, ég sleppti bleikjunni aftur eins og ég hef haft fyrir reglu undanfarið ár (er ekki fanatískur veiða/sleppa, ég bara nenni ekki að gera að þessu þannig að það er bara einfaldara að sleppa). Enginn skaði skeður. Ég skal þó gefa lögunum og læknum „the benefit of the doubt“ og sleppa því að kasta þarna þar til 1. apríl. Ég er löghlýðinn maður og vill alls ekki gera neitt sem ekki má í veiðiskap.